Sjálfvitund

Sjálfsvitund felst í að þekkja sína innri líðan s.s. tilfinningar, orsakir tilfinninga, svo sem styrk- og veikleika, og síðast en ekki síst gildi okkar eða fyrir hvað við stöndum.

Æfing dagsins

Markmið dagsins er að þekkja sjálfan sig betur, að taka okkur eins og við erum og notfæra okkur það til að halda áfram að læra inn á okkur og um leið þróast og þroskast. Til þess getum við notað SWAN kerfið.

SWAN stendur fyrir:

S: Styrkleiki (Strengths)
W: Veikleiki (Weaknesses)
A: Markmið (Aims)
N: Þarfir (Needs)

Styrkleikinn er jákvæðir eiginleikar okkar. Styrkleikinn getur verið persónueinkenni, s.s. góðmennska, þakklæti, hugrekki o.s.frv. eða eiginleikar sem við höfum tileinkað okkur eða lært, s.s. að teikna vel, framsögn, framkoma o.s.frv. Meðan við gerum SWAN æfinguna í að tilgreina styrkleika okkar ættum við ekki bara að einblína á auðþekkjanlegu styrkleika heldur líka hluti sem við erum góð í en eru duldir eða jafnvel í dvala sem við notum ekki meðvitað. Það er gott að skrifa allt niður sem okkur dettur í hug sem styrkleika, án ritskoðunar en um leið að vera heiðarleg/ur.

Veikleikar eru þau einkenni eða atriði sem draga úr möguleikum okkar. Veikleikarnir hægja á framþróun okkar og þroska. Sem dæmi um veikleika er t.d. leti, frestunarárátta, reiði, pirringur og óþolinmæði. Flest okkar hafa lært, eða teljum okkur þurfa, að fela veikleika okkar, sem verða til þess að þeir stækka fremur en minnka þegar við mætum mótlæti. Markmið okkar á að vera að við séum meðvituð um veikleika okkar og finna út hvernig við getum notað styrkleika okkar til að sigrast á veikleikunum.  

Markmiðin okkar eru það sem kemur okkur fram úr á hverjum degi, hjálpar okkur að vinna með okkur sjálf og þroskast. Þegar við skráum niður markmið okkar er gott að hafa í huga að þau þurfa að vera raunhæf, að við getum með styrkleikum okkar náð þeim, en þau séu ekki óraunhæf draumsýn. 

Við höfum öll þarfir, frumþarfir okkar eru t.d. fæða, vatn, húsaskjól, klæði o.s.frv. Þegar frumþörfum okkar hafa verið uppfylltar þá koma fram aðrar þarfir fyrir ást, menntun, bætta félagsleg stöðu o.s.frv. Almennt er talið að við séum með 6 flokka af þörfum: líkamlegar, andlegar, tilfinningalegar, sálfræðilegar, félagslegar og trúarlegar eða andlegar. Við þurfum að gefa okkur tíma til að skrá niður þarfir okkar og raða þeim niður í þessa flokka.    

SWAN æfingin krefst þess af okkur að við gefum okkur tíma til að fara í gegnum alla þætti hennar. Við þurfum að sýna einurð í að leita að svörum við eftirfarandi spurningum:

Styrkleikar:

  • Hvaða styrkleika langar mig að þróa með mér?
  • Hvaða styrkleika hef ég erft frá fjölskyldunni minni?
  • Hverjir eru styrkleikar mínir, samkvæmt fólki sem þekkir mig?
  • Hvaða styrkleika get ég notað til að sigrast á veikleikum mínum?
  • Hvaða styrkleikar geta hjálpað mér við að ná markmiðum mínum?

Veikleikar:

  • Hverjir eru mínir helstu veikleikar?
  • Hvaða veikleikum get ég sigrast á?
  • Hvaða veikleika get ég sætt mig við og lifað með?
  • Hvaða veikleika get ég ekki sætt mig við?
  • Get ég snúið einhverjum veikleikum mínum yfir í styrkleika?
  • Hvaða veikleikar hindra mig í því að ná markmiðum mínum?

Markmið

  • Hvaða markmið mín eru raunhæf og framkvæmanleg? Gefðu þau óraunhæfu upp á bátinn.
  • Hver er rótin að markmiðum mínum: fjölskyldan mín, draumar mínir eða væntingar samfélagsins?
  • Á hverju eru markmið mín byggð: ótta, þrá, ást?

Þarfir

  • Hverjar eru þarfir mínar, en ekki þrár?
  • Eru þetta raunverulegar þarfir mínar eða væntingar samfélagsins?
  • Hvaða þörfum mínum er fullnægt? Hvað þarf ég að gera til að fullnægja þeim sem eftir eru?

Sá sem fann upp þessa æfingu, Swami Niranjananda, mælir með að við gerum þetta á hverjum degi í 3 mánuði. Til þess getum við notað þá gömlu og margprófuðu aðferð að prenta út SWAN spurningarlistann og fylla hann út, eða að við getum notfært okkur hugleiðsluæfingu á þeim tíma dags sem hentar okkur best ( https://youtu.be/NolEKUEET_g).